2.600 færri bifreiðar óku Ártúnsbrekku og Sæbraut milli kl. 7-9 í morgun miðað við mánudaginn 15. september sl. Eftir því sem fram kemur á vef Reykjavíkurborgar er þetta marktækur munur.
Lokadagur evrópskrar samgönguviku er í dag og á honum eru íbúar í tvö þúsund borgum hvattir til að hvíla bílinn og nýta aðra samgöngumáta eins og strætó, reiðhjól og göngur.
Að sögn Pálma Freys Randverssonar, verkefnisstjóra Samgönguviku fyrir Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar fer bíllausi dagurinn hægt af stað. Segist hann þó binda vonir við að þátttakan muni aukast á næstu árum.
Pálmi segist ánægður með Samgönguviku 2008, bæði hafa samgöngumál verið ofarlega í umræðunni auk þess sem nýtt samgöngumannvirki verið opnað, þ.e. forgangsakrein fyrir almenningssamgöngur.
Laugardaginn sl. mættust hjólalestir í Ráðhúsi Reykjavíkur á hjóladegi fjölskyldunnar. Fjölskyldur komu hjólandi frá Garðabæ, Hafnarfirði, Kópavogi, Mosfellsbæ og ýmsum áfangstöðum í Reykjavík. Einnig var Tjarnarspretturinn haldinn en það er hjólreiðakeppni Hjólreiðafélags Reykjavíkur. Tjarnarsprettsmeistari kvenna var Bryndís Þorsteinsdóttir en Hafsteinn Ægir Geirsson sigraði í karlaflokki.