Raflínur vegna álvers í Helguvík verða ofanjarðar í landi Voga á Vatnsleysuströnd, samkvæmt drögum að samkomulagi milli Landsnets og sveitarfélagsins. Íbúar fá ekki að kjósa um málið líkt og vilji þeirra stóð til á íbúafundi í fyrrasumar. 354 skoruðu nýlega á sveitarfélagið að hafa íbúakosningar.
Inga Sigrún Atladóttir, oddviti minnihlutans í bæjarstjórninni, segir skelfilegt að íbúar fái ekki að kjósa um málið. Sveitarfélög ráði yfirhöfuð litlu um skipulagsmál þegar stórir fjárhagslegir hagsmunir séu annarsvegar. Þrýstingurinn beri þau ofurliði.
Drög að viljayfirlýsingu milli Landsnets og Voga eru trúnaðarmál. Samkvæmt heimildum fréttastofu fellst meirihlutinn á að raflínurnar verði ofanjarðar. Fram hefur komið að Landsnet taldi of dýrt að grafa þær í jörðu. Enn er ósamið við landeigendur. Línurnar verða tvöfaldaðar frá því sem nú og liggja frá Hellisheiðarvirkjun að Hamranesi í landi Hafnarfjarðar, meðfram Reykjanesbraut í landi Voga og allt að Fitjum í Njarðvík. Enn er ósamið vip Hafnfirðinga.
Bæjarstjórinn í Vogum segir að ekki hafi þótt ástæða til að hafa beina kosningu um málið þar sem samráð við íbúa hafi verið hefðbundið og málið sé nú á ábyrgð bæjarstjórnar.