Ríflega þriðjungur svarenda á aldrinum 18 til 35 ára í könnun sem Félagsvísindastofnun vann fyrir ASÍ telur eðlilegt að Íslendingar njóti betri kjara á vinnumarkaði en fólk af erlendum uppruna. Þessi niðurstaða stingur í stúf við önnur svör sem leiddu m.a. í ljós að langflestir töldu að ASÍ ætti að leggja áherslu á launa-, jafnréttis- og mannréttindamál í starfi sínu.
„Þetta er verulegt áhyggjuefni,“ segir Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, um afstöðu fjölda svarenda til launakjara erlendra starfsmanna. „Það skiptir mjög miklu máli að missa ekki dampinn í umræðunni um „Einn rétt og ekkert svindl“ sem var yfirskrift hennar á sínum tíma. Þessi viðhorf gefa fullt tilefni til að velta því fyrir sér hvað þetta unga fólk er að hugsa.“