Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra segist furða sig á umsókn landeigenda í Reykjahlíð í Mývatnssveit um rannsóknarleyfi og forgang að nýtingu jarðvarmaorku í eignarlandi sínu. Landeigendurnir vilja reisa nýja 50 megawatta virkjun á Bjarnaflagssvæði.
Össur sagði í viðtali við RÚV að orkan á þessum slóðum komi úr sama jarðorkugeyminum og Landsvirkjun hyggst framleiða 90 megawött úr.
Ekki farið með rányrkju um jarðhitann
„Það er alveg ljóst að það er ekki hægt að fara með neinni rányrkju gagnvart jarðhitanum og það verða ekki meira en 90 megawött miðað við þær rannsóknir sem liggja fyrir teknar upp úr þessum sama geymi," sagði Össur.