Fullyrt er í nýrri skýrslu alþjóðasamtaka flugvirkja að bilanir í flugvélum séu sjaldan skráðar í viðhaldsskrár þeirra fyrr en vélarnar eru á leið til heimaflugvallar eða vallar þar sem flugfélagið sem á vélina er með viðgerðaraðstöðu. Jafnvel þótt bilunin komi upp mun fyrr eru flugmenn hvattir, af vinnuveitendum sínum, til þess að skrá þær ekki.
Upplýsingafulltrúi Flugmálastjórnar Íslands segist ekki vita til þess að þetta sé vandamál hér. Flugmálastjórn ber að tryggja flugöryggi og starfsmenn hennar fara m.a. í eftirlitsferðir með flugmönnum.
Í skýrslunni segir að 85% allra bilana séu skráð þegar flugvélin er á „heimleið“ en í samtali við sænska ríkissjónvarpið segir varaformaður alþjóðasamtaka flugvirkja að eðlilegt sé að ætla að helmingur bilana verði á leið utan og afgangurinn á heimleið.