Vöktun lögreglunnar við grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu heldur áfram og í dag var fylgst með ökumönnum við Norðurfell í Breiðholti og við Selásbraut í Árbæ. Alls voru brot 76 ökumanna mynduð og mega þeir eiga von á sekt heim.
Á einni klukkustund fyrir hádegi fóru 94 ökutæki um Norðurfell í vesturátt og ók meirihluti þeirra, 55 ökumenn eða 59% of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var 47 km/klst en þarna er 30 km hámarkshraið. 21 óku yfir 50 km hraða en sá sem hraðast ók mældist á 62. Á þessum stað í Norðurfellli eru bæði merktar gangbrautir og hraðahindranir.
Á Selásbraut var fylgst með ökutækjum sem óku í norðurátt við Selásskóla. Á einni klukkustund, eftir hádegi, fóru 72 ökutæki þessa akstursleið og þar af óku 21 ökumaður, eða 29%, of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var rúmlega 42 km/klst en þarna er 30 km hámarkshraði. Sá sem hraðast ók mældist á 49. Á þessum stað á Selásbraut eru hraðahindranir.