Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra var í gær afhent eintak af nýjustu bók arkitektsins Hjörleifs Stefánssonar, Andi Reykjavíkur. Í fréttatilkynningu frá Forlaginu segir að Hjörleifur fjalli í bókinni af fagmennsku og innlifun um byggingarsöguleg einkenni Reykjavíkur og leitist við að skýra tilurð borgarinnar.
„Hann skoðar hvað hefur farið miður í þróuninni og hvers vegna við höfum ekki umgengist miðbæinn af umhyggju fyrir sögulegu hlutverki hans og byggt hús í takt við það gildismat sem hæfir menningu okkar. Ennfremur varpar Hjörleifur fram hugmyndum um hvernig gera megi Reykjavík fallega,“ segir í tilkynningunni.
„Andi Reykjavíkur er þarft innlegg í umræðu sem hefur stigmagnast á síðustu mánuðum og árum, nú síðast í umræðunni um fyrirhugaða nýbyggingu Listaháskóla Íslands við Laugaveg, og í uppkaupum borgarstjórnar á húsunum við Laugaveg 4 og 6.“