Mjólkurbúinu á Blönduósi verður lokað frá og með áramótum vegna hagræðingar í rekstri Auðhumlu, samvinnufélags mjólkurframleiðanda. Ljóst er að sjö starfsmenn munu missa vinnuna við þetta, en mjólkurbílstjórar halda sínum störfum þar sem áfram verður keyrð mjólk á svæðið að sögn Egils Sigurðssonar, stjórnarformanns Auðhumlu. Hann hefur nýlokið fundi með starfsmönnum þar sem þeim var kynnt ákvörðunin.
„Þetta er óhjákvæmilegt í ljósi erfiðrar rekstrarstöðu hjá okkur,“ segir Egill. „Við erum að leita hagræðingar í rekstri og þetta var niðurstaðan.“
Starfseminni lýkur um áramót en til stendur að nýta húsnæði mjólkurbúsins í aðra starfsemi á vegum Auðhumlu og vonast Egill til að með því skapist ný störf sem geti að einhverju leyti verið mótvægi við þau störf sem glatast nú.
„Við munum flytja þangað bragðefnavinnslu sem við höfum verið að fjárfesta í og styðja við bakið á og er nú að komast á skrið, en hún hefur verið í uppbyggingu á Skagaströnd.“ Fyrirtækið vinnur bragðefni úr sjávarafurðum.