Ung kona á Akureyri, Halldóra Arnórsdóttir, sem býr ein í einbýlishúsi við Eyrarveg vaknaði upp við vondan draum um kl. 4:30 í morgun, þegar innbrotsþjófur með vasaljós í hönd, stóð við rúmgaflinn í svefnherbergi hennar.
Fram kemur á vefnum, að Halldóra öskraði á manninn þegar hún varð hans vör og brá honum svo mikið að hann öskraði á móti og hljóp út úr húsinu.
„Ég stökk fram úr rúminu og öskraði á eftir manninum sem hljóp niður Eyrarveginn og hringdi svo á lögregluna," sagði Halldóra í samtali við Vikudag. Lögreglan hafði fljótlega hendur í hári mannsins, sem hafði skilið bíl sinn eftir fyrir utan hús Halldóru með lyklunum í.
Halldóra segir að þetta hafi verið óhugnanleg lífsreynsla en maðurinn, sem var svartklæddur og með húfu eða hettu á höfðinu, hafði náð að teygja sig inn um glugga í læsingu á bakhurð og þannig komist inn í húsið. "