Landhelgisgæslan þarf að draga úr siglingum varðskipa sinna um 50% að minnsta kosti fram að áramótum til að spara olíu. Þetta þýðir að skipin verða aldrei bæði á sjó samtímis að sögn Georgs Kr. Lárussonar forstjóra Gæslunnar. Hann telur að þrátt fyrir þetta geti Gæslan sinnt eftirliti þokkalega.
„En auðvitað væri betra að geta gert betur,“ segir hann. Bæði varðskipin hafa verið í höfn undanfarna 2 daga, í hefðbundinni helgarinniveru. Georg segir að þrátt fyrir meiri inniveru skipanna sé alltaf höfð áhöfn á vakt í legunni og farið verði í aðkallandi verkefni, þótt stefnan hafi verið tekin á að nota þau minna. Um flugflota Gæslunnar gildir einnig að tækin verða notuð sem allra minnst. Engu tæki hefur verið lagt, hvorki í flugflota né skipum. „En við reynum að fljúga minna og sigla minna,“ segir Georg. Miðað við óbreytt olíuverð til áramóta stefnir í 120 milljóna kr. kostnað hjá Gæslunni vegna olíuverðshækkana. „Við hefðum lent í rekstrarerfiðleikum ef við hefðum ekki gripið til þessara aðhaldsaðgerða á miðju sumri,“ segir hann.