Hörð gagnrýni á norræna menntamálaráðherra

Norrænu menntamálaráðherrarnir vinna of hægt og taka norrænt tungumálasamfélag ekki nógu alvarlega. Gagnrýnin kemur frá fjölmörgum fulltrúum í Norðurlandaráði sem funda á Íslandi í þessari viku. Greint er frá þessu í tilkynningu frá Norðurlandaráði.

Norrænt tungumálsamfélag á undir högg að sækja. Að þeirri niðurstöðu hefur menningar- og menntanefnd Norðurlandaráðs komist. Þingmennirnir sem skipa nefndina gagnrýna þá ráðherra sem bera ábyrgð á tungumálakennslu fyrir að hrinda ekki metnaðarfullri stefnu um norræna tungumálakunnáttu í framkvæmd.

Stefnan, sem er í formi norrænu tungumálayfirlýsingarinnar, var samþykkt árið 2006.
„ Segja má að ekkert hafi gerst frá árinu 2006. Okkur finnst að ráðherrarnir eigi að taka á þessu máli og hrinda markmiðum tungumálayfirlýsingarinnar í framkvæmd. Við höfum áhyggjur af því að góð og metnaðarfull stefna verði að engu. Það þarf því að hafa hraðar hendur til að styrkja norrænan tungumálaskilning og fjöltyngi, sem skapa Norðurlöndum sérstöðu í Evrópu“, segir Mogens Jensen formaður menningar- og menntamálanefndar Norðurlandaráðs.

Í tungumálayfirlýsingunni er meðal annars stefnt að því að allir norrænir borgarar læri að lesa og skrifa það tungumál sem er ráðandi á því svæði sem þeir búa á. Markmiðið á að vera að allir Norðurlandabúar geti átt samskipti sín á milli á norrænu tungumáli og að þeir kunni eða hafi þekkingu á einu eða fleirum erlendum tungumálum.

„Við eigum að vera metnaðarfull og leggja okkar á vogarskálarnar þannig að Norðurlönd verði áfram í fararbroddi þegar kemur að tungumálastefnu. Norræna málsamfélagið er opið og lýðræðislegt og mikilvægt er að við getum áfram skilið tungumál hvers annars. Norræna líkanið um eitt málsamfélag má kynna á alþjóðavettvangi og nota sem fyrirmynd fyrir önnum fjöltyngd svæði“, segir Mogens Jensen.

Menningar- og menntanefnd Norðurlandaráðs lýsti fyrir tveimur árum yfir ánægju með að ráðherrarnir og Norræna ráðherranefndin hefðu sett af stað vinnu við að móta norrænu tungumálastefnu. En nú, tveimur árum síðar, er nefndin óánægð með að starfinu hafi ekki verið fylgt eftir, hvorki á norrænum vettvangi né í þjóðlöndunum.

Nefndin hvetur einnig til samræmis í störfum menningarmálaráðherra og menntamálaráðherra. Þingmennirnir benda meðal annars á að styrkir til þýðinga á menningarsviðinu ætti að vera hluti af heildaráætlun, sem hefði að markmiði að styrkja norrænan tungumálaskilning, að því er segir í tilkynningu frá Norðurlandaráði.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka