Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra og yfirmaður sérsveitar embættisins, hefur sagt sig úr Lögreglufélagi Reykjavíkur vegna ummæla Óskars Sigurpálssonar, formanns Lögreglufélagsins, í kvöldfréttum Sjónvarps á sunnudag. Óskar sagði þar að ríkislögreglustjóraembættið hefði að mörgu leyti verið tilraun sem hefði misheppnast.
Jón Bjartmarz hefur verið yfirmaður sérsveitarinnar frá árinu 1987, lengur en nokkur annar yfirmaður í sögu sveitarinnar, sem er orðin 26 ára.
„Það er mín sannfæring að það sé bara ein lögregla á Íslandi og að allir lögreglumenn séu í sama liðinu,“ segir Jón.
Að hans mati er of mikill „hrepparígur“ innan lögreglunnar sem alið sé á í fjölmiðlum.
„Það er ekki ásættanlegt að formaður [Lögreglu]félagsins skuli taka þátt í slíku með þessum hætti enda engin umræða farið fram um málið innan félagsins. Lögreglan á Íslandi þarf að vinna saman sem ein heild að því að sinna löggæslu og takast á við ný verkefni og nýjar ógnir. Tíma og kröftum á ekki að eyða í innbyrðis togstreitu og dægurþras,“ segir hann.