Söfnunarfé varið til tilraunaaðgerða í Þýskalandi

Guðlaugur Þór Þórðarson er hann tilkynnti um stofnun Mænuskaðastofnunar.
Guðlaugur Þór Þórðarson er hann tilkynnti um stofnun Mænuskaðastofnunar.

Ekki liggur endanlega fyrir hversu miklu fé var safnað fyrir Mænuskaðastofnun Íslands í söfnun sem náði hámarki með sjónvarpsþætti á Stöð 2 á föstudag. Þegar þættinum lauk höfðu safnast 65 milljónir en endanleg upphæð liggur fyrir í vikunni.

Auður Guðjónsdóttir, hjúkrunarfræðingur og stjórnarformaður Mænuskaðastofnunar Íslands, segir söfnunarfénu verða veitt til tilraunameðferðar í Þýskalandi þó enn eigi eftir að semja um tæknileg atriði.

Aðgerðin felst í að opna inn á mænuna aðeins nokkrum klukkustundum eftir slys og hleypa þaðan út vökva til að minnka bjúg og bólgur. Þannig verður reynt að koma í veg fyrir öramyndun í mænunni sem hindrar taugaboð.

„Það á ekki að setja neitt inn í mænuna, eingöngu gera henni fært að lækna sig sjálf,“ segir Auður og bætir við að þessar rannsóknir séu enn á tilraunastigi.

Hún segir svipaða aðgerð hafa verið gerða á þýskri stúlku og þar hafi sýnt sig að vefurinn hafi læknað sig sjálfur þó rafmagnið sem stjórnar taugaboðunum hafi vantað. „Það er auðvitað ekki gefið að fólk læknist strax. En einhvern tímann verður að hafa kjark til að stíga fyrsta skrefið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert