Ísland er í 7. sæti á nýjum lista stofnunarinnar Transparency International þar sem lagt er mat á spillingu í stjórnsýslunni. Ísland var í efsta sæti á þessum lista ásamt Finnlandi fyrir tveimur árum en hefur síðan lækkað og einkunn landsins er nú 8,9, var 9,2 í fyrra.
Danmörk, Svíþjóð og Nýja-Sjáland fá hæstu einkunn stofnunarinnar sem þýðir að þar sé spillingin minnst.
Danmörk, Svíþjóð og Nýja-Sjáland fá einkunnina 9,3, Singapúr 9,2, Finnland og Sviss 9, Ísland 8,9 og Ástralía og Kanada 8,7. Athygli vekur, að Noregur fellur úr 9. sæti í það 14. Einnig vekur athygli, að Rússland er í 147. sæti og hefur ekki verið neðar frá árinu 2000.
Alls eru 183 lönd á lista Transparency International. Lægst er Sómalía með einkunnina 1, síðan Írak og Búrma með 1,3, Haítí með 1,4, Afganistan með 1,5 og Súdan með 1,6.
Heimasíða Transparency International