Veðurstofa Íslands reiknar með að það rigni vel í kvöld og nótt. Rigningin á þó að ganga niður að mestu leyti á morgun. En þá tekur við skúraveður. Við munum þó sjá til himins.
Á föstudag tekur aftur við grenjandi rigning. Haraldur Eiríksson veðurfræðingur segir að þetta sé endurtekið efni frá síðasta hausti. September hafi verið mjög blautur í fyrra. Landsmenn mega svo krossa fingur, því um helgina er búist við uppstyttu og jafnvel mildu veðri. Það gæti þó fljótlega breyst.
Börn sem MBL Sjónvarp hitti fyrir utan Hlíðaskóla voru þó hæstánægð með rigninguna, þar sem hægt væri að drullumalla, renna sér hraðar í rennibrautinni, móta hárið á sér í mismunandi stellingar. Eitt þeirra sagðist þó við fyrsta tækifæri ætla að hlaupa á nærbuxunum út í sólina.