Bæjaryfirvöld á Akureyri eru ekki hrifin af hugmyndum Landsnets um að 220 kílóvolta háspennulína verði lögð um Eyrarlandsháls ofan Kjarnaskógar en þar er fyrirhugað útivistarsvæði.
Landsnet hf. vinnur að undirbúningi lagningar 220 kV háspennulínu frá Blöndu til Akureyrar; Blöndulínu 3, en það er fyrsti áfangi styrkingar byggðalínuhringsins. Línan mun liggja um Húnavatnshrepp, Sveitarfélagið Skagafjörð, Akrahrepp, Hörgárbyggð og Akureyrarkaupstað, að Rangárvöllum, alls um 110 km leið.
Í næsta áfanga þar á eftir verður línan svo lögð áfram austur yfir Vaðlaheiði og þá kemur í ljós hvar hún verður lögð í landi Akureyrar og sú vinna er nú í skipulagsferli. „Við erum ekki sátt við það að fara með línuna upp í Fálkafell og þar áfram Eyrarlandshálsinn því þarna er gert ráð fyrir útivistarsvæði í framtíðinni. En við erum í góðri samvinnu við Landsnet um að finna góða lausn,“ sagði Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri á Akureyri. Enn er aðeins um hugmyndir að ræða og Sigrún Björk segir eitt af því sem kastað hafi verið fram að línan verði lögð ofar, t.d. yfir Súlumýrarnar.