Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hefur kynnt drög að frumvarpi um öryggis- og greiningarþjónustu fyrir fulltrúum þingflokka, þar sem því er lýst hvernig skipa megi þessum málum hér á landi. Þá hefur nefnd á vegum utanríkisráðherra um hættumat einnig verið kynnt þessi frumvarpsdrög.
Björn sagði í samtali við mbl.is að þessi drög væru ennþá trúnaðarmál og væru á umræðustigi. Hann vildi því ekki veita nákvæmar upplýsingar um innihald þeirra.
Fram kom í fyrirlestri sem Björn flutti á Bifröst í dag að meðal þeirra álitaefna, sem þyrfti að taka afstöðu til áður en slík lög yrðu sett, væru hvar ætti að skipa slíkri öryggis- og greiningarþjónustu innan stjórnkerfisins, og hvaða „Kínamúrar" þurfi að vera á milli löggæslu og öryggisþjónustu.
Í fyrirlestrinum sagði Björn að það væri rökbundinn þáttur í svona starfsemi að það yrði eftirlit, m.a. af hálfu löggjafavaldsins.
Þessi stofnunin myndi hafa forvirkar rannsóknarheimildir, þ.e. hún gæti hafið rannsókn áður en brot yrðu framin með það að markmiði að koma í veg fyrir afbrot. Þessar rannsóknir myndu beinast að atferli sem væri talið ógna almenningi, öryggi ríkisins og sjálfstæði þess. Atferlið sem slíkt þyrfti hins vegar ekki að vera refsivert í sjálfu sér. Þetta væru víðtækari heimildir en lögreglan hefur nú, því að lögreglurannsóknir beinast að brotum sem hafa þegar verið framin.
Þetta myndi gera íslenskum yfirvöldum kleift að eiga samskipti við erlend yfirvöld og stofnanir sem sinna sambærilegum rannsóknum í öðrum ríkjum. Þetta myndi beinast gegn skipulagðri glæpastarfsemi eða hugsanlegum hryðuverkamönnum, sem hefðu annað hvort það að markmiði að fremja hryðjuverk hér á landi eða skipuleggja hryðjuverk í öðrum löndum.