„Við erum bara að skiptast á skoðunum,“ segir Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins (LRH), um umræður um skipan lögreglumála sem spruttu í kjölfar þess að sérsveitin, sem nú er undir ríkislögreglustjóra, lúti stjórn LRH. Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri hefur sagt þá hugmynd fráleita og að fremur eigi að sameina lögregluliðið undir stjórn ríkislögreglustjóra. „Hann hefur haldið þeim skoðunum fram en ég er á annarri skoðun og hef fært fyrir því rök,“ segir Stefán.
Þá sé hugmyndin „ekki fráleitari en svo að þetta er fyrirkomulagið sem er í gildi alls staðar í kringum okkur, t.d. í Ósló og Helsinki.“
Spurður um ummæli Birgis Ármannssonar, formanns allsherjarnefndar Alþingis, um að embættin séu að reyna að styrkja stöðu sína fyrir endurskoðun lögreglulaga, segist Stefán ekki telja að menn nálgist málin með þeim hætti. „Ég hef í raun bent á tvær leiðir, annaðhvort að færa löggæsluverkefni frá ríkislögreglustjóra til lögregluembættanna út af eðli starfsins hjá ríkislögreglustjóra. Hin leiðin er að sameina embætti ríkislögreglustjóra og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Það felur í sér að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu yrði lögð niður og sameinuð öðru embætti. Ég veit ekki hvernig hægt er að líta á það sem innlegg í að ég sé að reyna að styrkja stöðu míns embættis umfram annarra,“ segir Stefán. Hann vilji ræða kostina nú þegar endurskoðun laganna sé framundan.