160 fangar voru í íslenska fangakerfinu í gær. Þar af sátu 143 í fangelsum landsins en rými þar eru alls 137. 127 þeirra voru að afplána óskilorðsbundna refsingu og fimmtán sátu í gæsluvarðhaldi. Öll rými í fangelsum landsins eru því full og tvísett er í átta klefa.
Þá eru 53 dómar óunnir þar sem dómþolar hafa verið dæmdir til óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar. Hluti þeirra mun væntanlega taka út dóm sinn í samfélagsþjónustu. 144 hafa verið boðaðir til afplánunar, en sumir þeirra eru með umsókn um samfélagsþjónustu, eru með frest á því að hefja afplánun, með beiðni um náðun í gangi eða þeim hefur ekki verið birt boðunarbréf. Þá hafa um 60 fangelsisdómar borist Fangelsismálastofnun nýverið til fullnustu sem eru enn í vinnslu hjá henni.
Tíu þeirra sem sitja í gæsluvarðhaldi eru í lausagæslu og fimm eru í einangrun, þar af tveir í fangelsinu á Akureyri. Í síðustu viku greindu fjölmiðlar frá því að afplánunarfangar hefðu verið vistaðir í fangageymslum lögreglunnar á Suðurnesjum og lögreglunnar í Reykjavík. Búið er að færa þá fanga í fangelsi.