Neitar að borga þak nágrannans

Herbert hefur fengið sér nýjan lögmann og áfrýjað til hæstaréttar
Herbert hefur fengið sér nýjan lögmann og áfrýjað til hæstaréttar Friðrik Tryggvason

„Þetta er ekkert nema andlegt og fjárhagslegt ofbeldi og það er algjörlega búið að rústa fjölskyldunni út af þessu,“ segir Herbert Guðmundsson tónlistarmaður. Hann hefur áfrýjað máli vegna nágrannadeilu sem hann tapaði nýverið í héraðsdómi Reykjavíkur til hæstaréttar.

Málið snýst um þak á fjölbýlishúsi þar sem Herbert býr við Prestbakka í Breiðholti í Reykjavík. Deilur hafa staðið milli fjölskyldu Herberts og  húsfélagsins vegna viðgerða á þaki, sem nágrannar Herberts vilja að hann greiði hlut í, þrátt fyrir að hans eigið þak sé í fullkomnu lagi eftir viðgerð þeirra hjóna fyrir um 15 árum síðan. Húsfélagið hefur hinsvegar ekki metið það Herberti til frádráttar heldur krefjast þess að hann greiði jafnt og hinir.

„Þetta eru allt í allt um 8 milljónir sem eiga að falla á okkur vegna þess að við löguðum þakið okkar á undan skussunum,“ segir Herbert sem hefur fengið dómskvaddan matsmann til að staðfesta að þakið hans sé í góðu ásigkomulagi og þarfnist ekki frekari viðgerða, ólíkt þökum nágrannanna. „Svo þegar fór að leka inn á þau fyrir tveimur árum þá allt í einu starta þau húsfélagi og byrja að rukka og síðan höfum við fengið rukkun upp á 500 þúsund inn um lúguna í hverjum mánuði.“

Herbert kennir meingölluðum lögum m.a. um það að málið hafi tapast í Héraðsdómi, en samkvæmt þeim sé raðhúsið skilgreint sem blokk. Hann segist ekki ætla að sætta sig við þessa niðurstöðu og er bjartsýnn á að vinna málið í Hæstarétti, annars fari hann á hausinn. „Ég trúi ekki öðru en að réttlætið muni sigra í þessu máli og gjörningur þessa fólks, sem hefur vaðið yfir mína fjölskyldu með níðingshætti í skjóli laganna, verði ómerktur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert