„Það hafa opnað staðir sem hafa ætlað að þjónusta skrifstofufólk í miðborginni með morgunmat og hádegismat en orðið að þekktustu búllum bæjarins og eru bara opnir eftir kvöldmat um helgar,“ segir Jóhannes Kjarval verkefnisstjóri þróunaráætlunar miðborgarinnar.
Nokkuð er um að veitingahús breyti um starfsemi eftir að hafa fengið veitingaleyfi frá borginni. „Þetta er mikill átakavettvangur og togstreita um þessi mál. Það er búið að taka aðeins fyrir þetta með betri skilgreiningu á mismunandi tegundum kaffihúsa og vínveitingastaða í lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Þó er alltaf eitthvað um að staðir hlaupi milli flokka,“ segir hann.
Jóhannes segir samþykkt að ekki verði heimiluð fleiri vínveitingaleyfi í íbúðahverfum umhverfis miðborgina. Skemmtistaði sem eingöngu eru opnir seint á kvöldin segir hann eiga heima annars staðar en í íbúðagötum.