Upptaka í sátt erfið án aðildar

„Löggjöf Evrópusambandsins [ESB] er nokkuð þögul um möguleika ríkja sem standa fyrir utan ESB og myntsamstarfið til að taka upp evruna,“ sagði Peter Dyrberg, danskur lögfræðingur sem starfar í Brussel og er forstöðumaður Evrópuréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík, á ráðstefnu á vegum viðskiptaráðuneytisins í Þjóðmenningarhúsinu í gær. Forsenda þess að evran verði tekin upp hér á grundvelli einhvers konar samstarfs við aðildarríki Evrópusambandsins og Seðlabanka Evrópu, er að ESB og Seðlabankinn sýni einhvern vilja til slíks samstarfs, að sögn Peters.

Hann velti upp þeirri spurningu hvers vegna viðbrögðin væru svona neikvæð frá þeim sem eru við stjórnvölinn í Brussel um hugmyndir um upptöku evru hér á landi án ESB-aðildar. „Ef þeir senda neikvæð skilaboð til ykkar, þá er mjög líklegt að þeir byggi það á lögfræðilegum grunni. Því ESB er byggt upp af mjög flóknu regluverki. Þetta [upptaka evru hjá ríkjum sem standa fyrir utan samstarfið] er ekki það sem menn höfðu hugsað sér með sameiginlegri mynt og samstarfi á þessu sviði.“

Það fyrsta sem þyrfti að skoða væri möguleg þátttaka Íslands í Efnahags- og myntbandalaginu án aðildar að Seðlabanka Evrópu eða Evrópusambandinu. Að sögn Peters er þessi möguleiki ekki fyrir hendi, það leiði af Rómarsáttmálanum og ákvörðunum teknum á grundvelli hans og reglum sáttmálans um einsleitni. Það séu einfaldlega ekki lagalegar forsendur fyrir slíku.

Varðandi sérstakt gjaldmiðilssamkomulag við Evrópusambandið, t.d. með tvíhliða tengingu við evruna, sagði Peter að sérstaklega þyrfti að skoða 1. mgr. 111. gr. Rómarsáttmálans í þessu samhengi. Í 1. mgr. segir að Evrópuráðið megi með einróma ákvörðun eftir tilmælum frá Seðlabanka Evrópu eða framkvæmdastjórninni og eftir að hafa ráðfært sig við Evrópuþingið, ganga frá formlegum samningi um tengingu myntar utan myntsamstarfs við evruna. „Þetta er sá lagalegi grunnur sem þeir hafa. Ef við skoðum ákvæðin þá sjáum við í 1. mgr. 111. gr. að Evrópuráðið þarf að samþykkja þetta einróma, svo það er nóg að aðeins eitt aðildarríki andmæli þessu,“ sagði Peter.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert