Útilokað að taka upp evru

Evruna geta Íslendingar ekki tekið upp nema með aðild að …
Evruna geta Íslendingar ekki tekið upp nema með aðild að ESB. Reuters

Evrópunefnd ríkisstjórnarinnar fundaði í morgun með Joaquín Almunia, framkvæmdastjóra gengis- og efnahagsmál innan ESB og sagði hann að Íslendingar ættu ekki kost á öðru en að ganga í ESB til að geta tekið upp evruna.

Ágúst Ólafur Ágústsson, og Illugi Gunnarsson, formenn Evrópunefndarinnar, segja að íslenska nefndin hafi fengið alveg skýr svör um að Almunia teldi að breyta þyrfti lögum ESB til að Íslendingar gætu tekið upp evru án inngöngu og að fyrir því væri ekki pólitískur vilji. 

„Almunia sagði að lagalega væri ekki möguleiki að fara þessa leið og að menn yrðu einfaldlega að vera aðilar ef þeir ætluðu að taka upp evruna," sagði Ágúst Ólafur í samtali við mbl.is.

Ekkert hald í fordæmum annarra smáríkja

„Hann sagði að ekki væri hægt að líta til þeirra smáríkja sem hafa tekið upp evruna eins og Andorra, Mónakó, San Marino og Vatíkanið með sama hætti og við myndum gera því þau ríki voru auðvitað með gömlu myntir aðildarríkja Evrópusambandsins, Líru, Franka eða Pesetann og þessi ríki hefðu ekki sjálfstæða peningamálastefnu, hefðu ekki seðlabanka þannig að það væri ekkert hald í þeim fordæmum," sagði Ágúst að lokum.

Illugi Gunnarsson sagði að afstaða Almunia kæmi ekki á óvart. „Almunia túlkar lög ESB sem heimila öðrum ríkjum að nota evruna mjög þröngt," sagði Illugi Gunnarsson. „Þetta eru lög sem menn hafa notað til að semja við önnur ríki um notkun á evrunni og Almunia telur að þeim þyrfti að breyta ef þau ættu að ná yfir Ísland og hann telur pólitískt útilokað að gera slíkt."

„Verðum að ná árangri með krónunni“

„Mín afstaða til þessara mála er sú að númer eitt, tvö og þrjú fyrir okkur Íslendinga sé að við náum tökum á okkar efnahagsmálum, peningastjórnarstefnunni og ríkisstjórnarstefnunni og náum árangri þar. Evran er ekki lausnin núna. Við verðum að ná árangri í krónunni núna, það er enginn annar kostur. Það er bara það sem er framundan," sagði Illugi sem er staddur með Evrópunefndinni í Brussel.

Gagnleg ferð eigi að síður

„Ferðin hefur verið mjög gagnleg, bæði í upphaflegum tilgangi sem var að kynna fyrir nefndinni hvernig kerfið virkar hérna úti og að ræða ákveðin mál sem snúa að Lissabon -sáttmálanum og stöðu ESB hvað varðar ýmsa málaflokka á borð við sjávarútvegs- og landbúnaðarmál. Það hefur allt gengið mjög vel og nú höfum við einnig fengið mjög afgerandi svör embættismanna hvað varðar upptöku evrunnar. Síðan leggja íslensk stjórnvöld sitt mat á þetta þegar þau fari að velta framtíðarskipan mála fyrir sér, " sagði Illugi að lokum.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert