Samkvæmt skólareglum Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra (FNV) á Sauðárkróki er það brottrekstrarsök að verða uppvís að því að eiga áhöld til fíkniefnaneyslu, jafnt þótt engin fíkniefni finnist. Við leit á heimavist skólans í morgun fundust áhöld til fíkniefnaneyslu í eigu eins nemanda. Vitað er hver átti áhöldin.
Jón F. Hjartarson skólameistari FNV sagði skólann hafa átt frumkvæði að fíkniefnaleitinni í morgun og slík leit sé árviss atburður. „Við fögnum því mjög að okkur gefist tækifæri til að uppræta vísi að einhverri neyslu hér á staðnum,“ sagði Jón. Í reglum heimavistar skólans er m.a. ákvæði um að þar megi nota hunda til fíkniefnaleitar.