Dæmdur fyrir nauðgun

Hús Hæstaréttar.
Hús Hæstaréttar. mbl.is/Sverrir

Hæstiréttur hefur dæmt fertugan karlmann í fimmtán mánaða fangelsi fyrir nauðgun, en frestað fullnustu tólf mánaða refsingarinnar. Maðurinn nýtti sér ölvun og svefndrunga konu til að hafa við hana samfarir. Það var í ágúst árið 2003. Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða fórnarlambi sínu 600 þúsund kr. í miskabætur.

Konan fór í samkvæmi hjá manninum um hádegisbil á sunnudegi ásamt fleira fólki. Hún neytti bæði áfengis og vímuefna. Síðdegis þann dag lenti hún í óminnisástandi og vaknaði ekki af því fyrr en um kvöldið. Þá var hún nær nakinn uppi í rúmi mannsins, og hann að klæða sig í föt. Hún gerði sér strax grein fyrir að maðurinn hafði haft við hana samfarir, en ræddi það ekki við hann. Hún spurði um fólkið sem var í samkvæminu og hélt í kjölfarið sína leið. Sama kvöld fór hún í skoðun á neyðarmóttöku.

Konunni leið mjög illa eftir atburðinn og dvaldist m.a. eina viku á áfengis- og geðdeild Landspítala. Í kjölfar dvalarinnar lagði hún fram kæru.

Maðurinn neitaði staðfastlega sök frá upphafi og samþykkti að tekið yrði lífsýni úr munnholi hans til að sanna sýknu sína. Niðurstaða úr rannsókn lífsýna, en lífsýni fannst í leggöngum konunnar við skoðun á neyðarmóttöku, leiddi til þess að maðurinn var sakfelldur.

Við ákvörðun refsingar var m.a. litið til þess hversu mikill dráttur var á málinu. Maðurinn var ekki dæmdur í héraði fyrr en í nóvember á síðasta ári. Ákærði flutti til Danmerkur og reyndist um tíma erfitt að ná í hann. Í dómi Hæstaréttar segir þó, að viðleitni lögreglu hafi verið stopul og ómarkviss. „Eftir að niðurstaða rannsóknar í Noregi lá fyrir [í apríl 2004] var fullt tilefni fyrir lögreglu til að beita úrræðum, sem hún hefur tiltæk með alþjóðasamvinnu, til að finna ákærða og handtaka hann ef þyrfti til að geta lokið rannsókn málsins og senda það ákæruvaldinu til ákvörðunar um ákæru.“

Lögregluskýrsla var tekin af manninum nokkrum mánuðum eftir nauðgunina. Eftir að niðurstaða úr lífsýnarannsókninni lá fyrir tókst ekki að hafa uppi á manninum fyrr en í mars 2007.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka