„Ég hneig niður í anddyri kirkju,“ segir Björn. „Týpískt fyrir hann að vera með svoleiðis dramatík,“ skýtur Mjöll inn í.
Björn segir frá því að á þessum sunnudegi fyrir fimm árum hafi honum liðið illa og fremur einkennilega. „Ég ákvað að leggja mig vegna líðanarinnar og þegar ég vaknaði var ég stífur í efri hluta líkamans. Mér fannst eins og ég þyrfti að hrista vanlíðanina af mér og ákvað að láta mér líða betur með því að fara og hlusta á fallega tónlist. Ég hélt því til Fíladelfíukirkjunnar á tónleika. Það var þar í anddyri kirkjunnar sem mér fannst ég hreinlega vera rekinn í gegn í hjartastað, slíkur var sársaukinn. Þar hneig ég niður og vinur minn sem var mér samferða keyrði mig í snarhasti á Landspítala við Fossvog.
Ég var síðan fluttur þaðan á Landspítalann við Hringbraut þar sem er bráðamóttaka brjóstverkja.“ „Það eru ekki margir sem vita það,“ bætir Mjöll við. „Mikilvægt er að fólk viti að bráðamóttaka fyrir þá sem lenda í hjartaáfalli er á Landspítala við Hringbraut. Tíminn skiptir öllu máli í þessum efnum,“ bætir hún við.
„Já, hjartað fékk styrkingu og liðsauka,“ segir Björn. „Við urðum ástfangin og Mjöll hefur staðið með mér í baráttunni. En ég veit að oft hefur álagið verið að buga hana því enginn sem verður veikur er einn, ættingjar og vinir bera alltaf byrðar.“
„Já, það er satt,“ segir Mjöll.
„Og það er erfitt að kljást við sjúkdóma sem ekki sjást. Fólk horfir á unnusta minn og sér ekki hversu veikur hann er og það er þreytandi og gerir mann reiðan að upplifa slíkt skilningsleysi. Mér fannst ég oft standa ein í þessari baráttu.“
Mjöll segir mál aðstandenda vera sér ofarlega í huga og sér í lagi þar sem hún hefur sótt sér hjálp vegna álagsins á Landspítalanum. Á Landspítalanum er boðið upp á sálfræðiaðstoð til aðstandenda. „Ég hef áður sótt mér hjálp og verið að því komin að bugast og enginn benti mér á þessa þjónustu.
Þessi hetjuímynd um makann sem stendur eins og klettur í hafinu er afskaplega mikil lumma,“ bætir Mjöll við að lokum. „Sannleikurinn er sá að það tekur verulega á að kljást við veikindi maka.“