Gamli Staðarskálaandinn fylgir

Ekki var annað að sjá en að bæði starfsfólk og …
Ekki var annað að sjá en að bæði starfsfólk og viðskiptavinir Staðarskála tækju flutningunum vel. mbl.is

Mikið var að gera í Staðarskála fyrsta daginn í nýja söluskálanum. Iðnaðarmenn voru að vinna við frágang húss og lóðar og gamlir viðskiptavinir litu inn til að sjá hvort gamli Staðarskálaandinn hefði ekki örugglega komið með vestur yfir ána. Starfsfólkið vildi gera sitt til að fólkið upplifði breytinguna þannig.


Nýr vegur um Hrútafjarðarbotn var opnaður fyrr í vikunni og beint í kjölfar þess var nýr Staðarskáli opnaður. Hann kemur í stað skálanna á Stað og Brú, Brúarskáli hefur verið rifinn en Staðarskáli fluttist úr alfaraleið með breytingum á veginum. „Við vonumst til að enn fleiri komi við hjá okkur. Við getum sinnt viðskiptavinunum betur í þessari nýju aðstöðu,“ segir Kristinn Guðmundsson, stöðvarstjóri hjá N1 í Staðarskála.


Framandi réttir með kjötsúpunni
Staðarskáli hefur lengi verið einn af helstu viðkomustöðum ferðafólks á leiðinni milli Reykjavíkur og Akureyrar. Þar hefur veitingastaðurinn verið í aðalhlutverki en einnig bensínafgreiðsla og sjoppa. Lögð hefur verið áhersla á íslenskan heimilismat. Kristinn segir að haldið verði í þessa hefð en möguleikarnir sem skapast með stækkun veitingastaðarins verði nýttir , meðal annars til að bjóða upp á nýja og framandi rétti með kjötsúpunni og ástarpungunum sem verið hafa með vinsælustu réttunum í Staðarskála.


„Þetta er erill og mikil vinna. En vinnan er skemmtileg, maður hittir margt fólk og kynnist skemmtilegum persónuleikum,“ segir Kristinn.

Akureyrarrútan kemur við í Staðarskála og margir vöruflutningabílstjórar, auk vegfarenda á eigin bílum. Vörubílstjórarnir sýndu hug sinn til staðarins þegar þeir þeyttu flautur bíla sinna framan við Staðarskála til að kveðja gamla skálann.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert