Öryggislending í Glasgow

Boeing 757-200 vél Icelandair
Boeing 757-200 vél Icelandair mbl.is/Víkurfréttir

Guðjón Arngrímsson upplýsingafulltrúi Icelandair sagði að um borð í flugvélinni hafi verið 174 farþegar. Mælitæki hafi sýnt að titringur væri í öðrum hreyflinum. Þess vegna hafi verið slökkt á honum og lent í Glasgow. Ekki er enn ljóst hvort tekst að laga bilunina eða hvort fá þarf aðra flugvél til að flytja farþegana á áfangastað.

Guðjón sagði að verið væri að skoða flugvélina og að farþegarnir bíði átekta í flugstöðinni í Glasgow. 

Þota Icelandair sem var á leið til Amsterdam í Hollandi í morgun þurfti að öryggislenda í Glasgow í Skotlandi fyrir skömmu vegna vélarbilunar.
Lendingin tókst vel og halda farþegarnir fyrst kyrru fyrir um borð í flugvélinni.

Farþegi um borð í flugvélinni sagði í samtali við mbl.is að flugvélin hafi átt eftir um klukkustundar langt flug á áfangastað þegar flugstjórinn tilkynnti að slokknað hefði á öðrum hreyflinum. Því þyrfti að nauðlenda í Glasgow í Skotlandi. Um hálftíma síðar lenti flugvélin í Glasgow. Að sögn farþegans mátti greina óróleika um borð í fullsetinni flugvélinni, en flestir héldu ró sinni og vonuðu hið besta.

Farþegarnir fundu enga breytingu á flugi flugvélarinnar. Lendingin tókst mjög vel og ef ekki hefðu staðið slökkvibílar við flugbrautina hefði hún verið „ósköp eðlileg“ að sögn farþegans. Farþegarnir höfðu verið búnir undir það að sjá slökkvíbílana við flugbrautina og sagt að nærvera þeirra væri venja við þessar aðstæður.

Um kl. 11.00 var beðið var eftir flugvirkja til að athuga hvað fór úrskeiðis í hreyflinum. Að sögn farþegans lék grunur á að skynjari hafi bilað. Reynist það rétt verði skipt um skynjarann og förinni haldið áfram til Amsterdam. Fáeinir farþegar munu hafa ákveðið að fara frá borði í Glasgow.

Farþeginn sagði að þau sem sitja um borð hafi fengu greinargóðar upplýsingar frá flugstjóranum og áhöfninni um gang mála. Búið var að opna dyrnar á flugvélinni þar sem hún stóð á flugvellinum svo skoskt loft streymdi um farrýmið og amaði ekkert að farþegunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka