Við verðum að snúa bökum saman til þess að ná árangri í pólitík. Innbyrðis deilur flokksins eru of sýnilegar á yfirborðinu og ekki til þess fallnar að auka trúverðugleika flokksins út á við. Formaðurinn verður að setja niður þær deilur sem innan flokksins ríkja fljótt og örugglega eigi flokkurinn ekki að hljóta skaða af. Þetta var inntakið í orðum margra þeirra sem til máls tóku á fundi sem Reykjavíkurfélög Frjálslynda flokksins stóð fyrir fyrr í kvöld.
Greinilegt var að fundargestum var mörgum hverjum afar heitt í hamsi. Sumir deildu býsna hart á formanninn meðan aðrir lýstu yfir fullum stuðningi við hann. Einn fundargesta líkti formanninum við skipstjóra í brúnni sem umkringdur væri fáeinum útvöldum mönnum í stórsjó og væri sama þótt einum og einum manni í áhöfninni skolaði útbyrðis sem og hluta af farminum sem upp hefði verið lagt með.
Sagði viðkomandi formanninn gera mikla skyssu í því að veðja á Kristinn H. Gunnarsson, þingmann FF í Norðvesturkjördæmi. „Það er full ástæða fyrir skipstjórann að gera upp við sig hvort hann ætlar að halda því sem eftir er af áhöfninni eða skilja við okkur með hálfgerðri fyrirlitningu,“ sagði einn fundargesta.
Nokkrir fulltrúar flokksins úr höfuðborginni tóku til máls og gagnrýndu mikla hnökra í innra starf flokksins og sögðu það hreinlega í molum. Sögðu þeir erfitt að starfa á vegum flokksforystu sem vildi nánast ekkert með þau hafa og léti jafnvel í það skína að það tæki því ekki að bjóða flokkinn fram í Reykjavík.
„Þá getur maður ekki varist þeirri tilhugsun að flokkurinn hafi einungis verið stofnaður af Vestfirðingum fyrir Vestfirðinga með hagsmuni Vestfirðinga að leiðarljósi,“ sagði einn þeirra sem til máls tók á fundinum og bætti við: „Ef það er rétt, þá hefði verið gott að vita það frá upphafi. Það er kannski best að hypja sig bara úr flokknum því maður er greinilega ekki velkominn. En það er miður því málefni flokksins kallast vel á við mín lífsgildi,“ sagði umræddur fundargestur og var hreint ekki einn um þessa skoðun.
„Stormur varir aldrei að eilífu. Einhvern tímann lægir,“ sagði Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður FF, í samtali við Morgunblaðið. „Menn hafa misjafnar skoðanir á því hvernig eigi að vinna úr þessum málum, en það verður mitt hlutskipti að reyna að vinna úr því á skynsamlegan hátt,“ sagði Guðjón.
Meira um málið í Morgunblaðinu á morgun.