Hin íslenska Vefþula verður kynnt á vísindavöku Rannís á morgun. Vefþulan kennir tölvum að skilja texta og færa hann í mælt mál og nýtist þannig námsmönnum sem eiga erfitt með lestur, en einnig þeim sem vilja spara sér tíma og hlusta á upplestur á sama tíma og þeir sinna öðru, segir í fréttatilkynningu.
Vefþulan hefur verið í þróun í nokkurn tíma í samstarfi Hexiu, Háskóla Íslands og Símans og býður Hexia ókeypis aðgang að netsíðu og netkerfi sem gerir fólki kleift að fá hvaða texta sem er lesinn upphátt. Vefþulan getur þannig auðveldað fólki lífið og sparað töluverðan tíma.
Hexia og Síminn hafa líka þróað Hlustandann, tæki sem skilur íslensku og getur brugðist við töluðum skipunum. Í sameiningu mynda Vefþulan og Hlustandinn grunninn að nýjum símalausnum þar sem tölvukerfi getur svarað fyrirspurnum, veitt aðgang að upplýsingum, sent skeyti og gefið samband við starfsmenn eða tekið skilaboð. Slíkar tungutæknilausnir eru væntanlegar á íslenskan markað innan skamms.
Vísindavaka Rannís er haldin í þriðja sinn á morgun og verður þar ýmislegt fróðlegt á boðstólum, s.s. kynning á nýstárlegur hálkuvari, jarðskjálftamælingar og fræðsla um alnæmi í Malawi, auk Hlustandans og Vefþulunnar.