Gríðarlega hefur dregið úr sölu á vinnuvélum og tækjum í landbúnaðargeiranum að undanförnu. Hið sama má segja um byggingar í landbúnaði og tala sumir forsvarsmanna fyrirtækja í geiranum um að viðskipti nálgist alkul.
Finnbogi Magnússon, framkvæmdastjóri Jötunn véla, segir að gríðarlega hafi dregið úr sölu hjá fyrirtækinu, bæði í landbúnaðartækjum og jafnframt í stálgrindahúsum sem fyrirtækið hefur í sölu. „Það eru engar ýkjur að það er nánast alkul á markaði með stálgrindahús hér hjá okkur núna. Það er líka bara kyrrstaða á markaði með vélasölu til bænda.“
Magnús Ingþórsson, framkvæmdastjóri Vélavers, segir að vissulega sé mikill samdráttur í sölu til bænda. „Þetta er auðvitað eins í þessum geira og öðrum geirum innflutnings. Á meðan gengi krónunnar er með þessum hætti þá er óstandið bara mjög erfitt. Við finnum mjög vel fyrir samdrættinum og við erum fyrir alllöngu byrjaðir að hagræða og breyta innan fyrirtækisins. Mín skoðun er sú að það sé ekki nein framtíð í því að halda í þennan gjaldmiðil okkar. Það verður bara að skipta um gjaldmiðil ef ekki á illa að fara. Við erum til dæmis bara farnir að gefa upp okkar verð í evrum. Krónan er því miður bara ónýt.“