Áfengisneysla 16 ára unglinga tvöfaldast yfir sumartímann

Athygli vekur að rúmur helmingur framhaldsskólanema segjast drekka áfengi fyrir …
Athygli vekur að rúmur helmingur framhaldsskólanema segjast drekka áfengi fyrir framhaldsskólaböll, og um 15 á sjálfum böllunum. mbl.is/Kristinn

Mikil aukning varð í ölvunardrykkju (meira en tvöföldun) meðal nemenda í 10. bekk að vori 2007 og framhaldsskólanema sem eru 16 ára eða yngri, haustið 2007. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu um vímuefnanotkun framhaldsskólanema á Íslandi.

Tæplega 20% nemenda í 10. bekk vorið 2007 sögðust hafa orðið ölvaðir sl. 30. daga, en tæplega 48% nemenda á fyrsta ári í framhaldskólum haustið 2007 - sami hópur aðeins nokkrum mánuðum síðar - sögðust hafa orðið ölvaðir sl. 30 daga.

Í skýrslunni kemur jafnframt fram að reykingar og neysla ólöglegra vímuefna hafi minnkað töluvert frá 2004 til 2007, en áfengisneysla hafi lítið sem ekkert breyst yfir sama tímabil. Hún hafi í raun lítið breyst frá árinu 2000. Fyrir fjórum árum sögðust 76% framhaldsskólanema aldrei hafa neytt ólöglegra vímuefna. Árið 2007 var hlutfallið komið yfir 80%.

Séu tölur varðandi áfengisdrykkju skoðaðar kemur fram að 53,6% framhaldsskólanema árið 2007 sögðust hafa drukkið áfengi fyrir framhaldsskólaböll, og 15,1% sögðust hafa drukkið áfengi á sjálfum böllunum. Að sögn skýrsluhöfunda er mikilvægt að mótuð verði heildstæð stefna og samhæfð aðgerðarætlun til að sporna við þessu. Annars muni lítið breytast.

Mótuð verði heildstæð stefna

„Okkur finnst það vera mjög eðlileg krafa að framhaldsskólar á Íslandi, sem eru reknir fyrir skattfé almennings og af menntamálaráðuneytinu, samþykki ekki áfengisneyslu í tengslum við skemmtanir á sínum vegum,“ segir Álfgeir Logi Kristjánsson, lektor við kennslufræði- og lýðheilsudeild Háskólans í Reykjavík, sem er einn skýrsluhöfunda í samtali við mbl.is.

Hann segir skýrsluhöfunda hafa skoðað neyslu á munn- og neftóbaki meira en áður hafi verið gert. „Ég verð að segja að það vekur furðu, svo ekki sé meira sagt, að 10% framhaldsskólanema - án tillits til kyns eða aldurs - segist nota munntóbak mjög reglulega, þ.e.a.s. þrisvar eða oftar á sl. 30 dögum.“ Hér sé um að ræða ólöglega vöru. Þetta hljóti því að vera vísbending að hér á landi sé mikið af slíku tóbaki í umferð.

Rannsóknir og greining vann að gerð skýrslunnar, sem er unnin úr þremur rannsóknum meðal framhaldsskólanema frá árunum 2000, 2004 og 2007. Sérstök áhersla var lögð á að skoða ólögráða aldurshópinn, 16 og 17 ára, annars vegar og hinsvegar hópinn sem er 18 ára og eldri.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert