Gæti bjargað fjölskyldum frá gjaldþroti

Félagsmálaráðherra skoðar nú hvort heimila eigi Íbúðalánasjóði að endurfjármagna íbúðalán sem tekin voru hjá bönkunum á sínum tíma. Slíkt myndi bjarga mörgum heimilum frá gjaldþroti en Íbúðalánasjóður leyfir viðskiptavinum sínum að frysta lán í allt að þrjú ár vegna greiðsluerfiðleika. 

Þeir sem tók níutíu prósenta lán hjá bönkunum fyrir tveimur árum til að kaupa húsnæði horfa margir hverjir fram á það að höfuðstóll lánsins er orðinn hærrri en verðmæti húsnæðisins. Það sem verra er, þverrandi kaupmáttur gerir það að verkum að fólk hættir að geta staðið í skilum. Þótt Íbúðalánasjóðslánin séu verðtryggð ekki síður en bankalán er hægt að frysta þau í allt að þrjú ár í von um batnandi tíð.

Ingólfur H. Ingólfsson hjá spara.is segir að þetta snúist jú allt um að spara tíma. Geti fólk beðið eftir því að verðbólgan lækki mun húsnæðisverðið á endanum hækka og fólk ná því að verða réttum megin við strikið. Hann telur þetta líka geta gagnast bönkunum, sem losi þannig um fé, en þeir séu ekki að græða mikið á sumum þessara íbúðalána sem séu 4,15 prósenta vöxtum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert