Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í 18 mánaða fangelsi fyrir að reyna að flytja inn 700 grömm af kókaíni til landsins frá Danmörku. Maðurinn kom með efnið til landsins í desember á síðasta ári og hafði drýgt kókaínið og selt allt að 300 grömm fyrir tæpar 800 þúsund krónur þegar hann var handtekinn í janúar.
Lögreglan gerði húsleit hjá manninum eftir að hafa fengið upplýsingar að hann væri að selja fíkniefni. Við húsleitina var framvísaði maðurinn um hálfu kílói af kókaíni, sem hann hafði ætlað til sölu, og einnig fundust 798.000 krónur í peningum sem maðurinn sagði tilkomna vegna fíkniefnasölu. Maðurinn sat í gæsluvarðhaldi í tæpa viku vegna málsins.
Maðurinn sagðist ekki eiga fíkniefnin sjálfur heldur annar maður sem hann vildi ekki nafngreina. Sagðist hann hafa farið til Spánar og flutt efnið hingað til lands og selt það síðan fyrir þennan mann. Átti hann að fá 1,5 milljónir króna fyrir að annast innflutning og sölu efnisins.
Í dómnum kemur fram, að maðurinn fór í meðferð eftir þennan atburð og vinnur nú hjá Samhjálp. Hann hefur 11 sinnum áður hlotið refsingu fyrir brot gegn almennum
hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni.