Minnsta ánægjan með þjónustu Reykjavíkur

Mynd úr safni , fyrst birt 1981006 ( Reykjavík ýmislegt …
Mynd úr safni , fyrst birt 1981006 ( Reykjavík ýmislegt 4 , síða 40 mynd 5d, mbl.is/Einar Falur

Íbúar Garðabæjar, Reykjanesbæjar og Seltjarnarness eru ánægðastir með þjónustu síns sveitarfélags. Þetta kemur fram í könnun Capacent en markmið hennar var að gera samanburð á ánægju íbúa fimmtán stærstu sveitarfélaga landsins og leggja grunn að þjónustuvísitölu sveitarfélaga. Lestina ráku Árborg, Fjarðabyggð og Reykjavík.

„Þetta er góður mælikvarði á hæft starfsfólk og skýra sýn sem bæjaryfirvöld leggja fram,“ segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar. Hann telur að gott gengi í könnuninni skýrist einnig af góðu samstarfi bæjarstarfsmanna við íbúa auk vel upplýstra íbúa sem njóta þjónustu hæfra bæjarstarfsmanna, hvort heldur sem er í skólum eða á bæjarskrifstofu.

Aðspurður viðurkennir hann að niðurstöður könnunarinnar hafi komið á óvart. „Við erum samfélag sem er á margan hátt ólíkt Garðabæ og Seltjarnarnesi. Útsvarstekjur á einstakling eru mun lægri hjá okkur en hjá þessum sveitarfélögum þannig að verkefni okkar að veita góða þjónustu er á margan hátt flóknara,“ segir Árni. Hann bætir þó við að Reykjanesbær hafi lært vel af þessum tveimur sveitarfélögum og hafi átt gott samstarf við þau. „Við höfum fylgst með vinnu þeirra og tekið upp margt af því sem þeir hafa haft til fyrirmyndar en við erum um leið stolt af okkar uppfinningum.“

Hvatning til að gera betur

Að sögn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarstjóra Reykjavíkur, var könnun sambærileg þessari gerð fyrir nokkrum árum af Gunnari Helga Kristinssyni við Háskóla Íslands og þar kom Reykjavík út með svipuðum hætti. Þar voru niðurstöðurnar útskýrðar á þann hátt að íbúar séu yfirleitt ánægðari með nærþjónustu lítilla sveitarfélaga en stærri. „Engu að síður tel ég að þessi könnun eigi að vera okkur hvatning til að gera enn betur. Ég vil auðvitað meina að þjónusta borgarinnar sé góð en ég held að menn geti alltaf bætt hana.“

Könnun Capacent var netkönnun og var úrtakið 4.800 manns en svarendur alls 2.962.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka