Orkuveita Reykjavíkur hefur sent frá sér fréttatilkynningu vegna ályktunar Vinstrihreyfingarinnar-Græns framboðs í Reykjavík fyrr í dag um gjaldskrárhækkun OR og bendir á að raunverð á heitu vatni og raforku hafi lækkað á undanförnum árum.
Í tilkynningu OR segir að raunverð á heitu vatni frá OR hafi lækkað um 27,4% frá ársbyrjun 1997. Hagkvæmni fjárfestinga OR á Nesjavöllum og á Hellisheiði hafi tryggt að raunlækkun raforkuverðs á sama tíma sé 29,4%.
„Hlutdeild húshitunar í vísitölu neysluverðs hefur lækkað úr 2,5% árið 1995 í 1,0% 2008,“ segir í tilkynningunni. „Orkuveita Reykjavíkur, sem þjónar um sjö af hverjum tíu landsmönnum í þessu efni, á þar stærstan hlut að máli. Aðskilnaður er á milli reksturs hitaveitu og annarar framleiðslu og dreifingar Orkuveitu Reykjavíkur, þ.m.t. rafmagns. Orkustofnun hefur lögum samkvæmt eftirlit með þessum aðskilnaði.“