„Ekki leiðin til þess að lægja öldur“

Kristinn H. Gunnarsson.
Kristinn H. Gunnarsson. mbl.is/Þorkell

Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður og þingflokksformaður Frjálslynda flokksins, telur sjálfsagt að flokksmenn ræði saman og reyni að útkljá deiluefni sín. Málin batni lítið við að reyna að útkljá þau í fjölmiðlum og bera fjarstadda menn sökum, hvort heldur á miðstjórnarfundi eða félagsfundi. „Það er ekki leiðin til þess að lægja öldur,“ sagði Kristinn í samtali við mbl.is fyrir hádegi.

Kristinn var ekki á fundinum sem Reykjavíkurfélög flokksins boðuðu til í gærkvöldi. Þar var m.a. deilt hart á framgöngu Kristins. Hann kvaðst hafa heyrt slitrur af því sem fram fór þar. Spurður um viðbrögð við því kvaðst Kristinn ekkert hafa að segja um það sem hann ekki heyrði.

„Það er sjálfsagt að ræða við þá sem vilja ræða við mig um málefni flokksins. En ég tel eðlilegt að menn geri slíkt á lokuðum fundum, en ekki í útvarpi eða á opnum fundum. Mér finnst slæmt hvað menn hafa lagt sig fram um að koma ágreiningingsefnum í fjölmiðla,“ sagði Kristinn.

Kristinn var spurður hvort hann myndi óska eftir fundi til að ræða þessi mál og stöðuna sem upp er komin, t.d. við miðstjórnina eða innan þingflokksins.

„Ég mun ekki gera það,“ sagði Kristinn. „Þeir sem vilja geta tekið málin upp við mig. Það er sjálfsagt að ræða við þá. Það hefur enginn gert hingað til. Hins vegar sé ég að menn hafa talsvert gert það í fjölmiðlum. Fljótlega verða haldnir fundir bæði í þingflokknum og í miðstjórn. Þar gefast mönnum tækifæri til þess að ræða þessi mál.“

-En ertu að endurskoða stöðu þína sem formaður þingflokksins? 

„Nei,“ svaraði Kristinn ákveðið.

-En var það einhvern tíma rætt að skipt yrði um þingflokksformann á kjörtímabilinu, t.d. á því miðju?

„Menn hafa tekið ákvörðun frá einu ári til annars um það. Ég geri frekar ráð fyrir því að þingflokksformaður sitji kjörtímabilið. Það er venjan,“ sagði Kristinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert