Skortur á gæðastjórnun í mannvirkjagerð veldur mistökum

Skortur á gæðastjórnun í íslenskum byggingariðnaði veldur því að milljarðar króna fara til spilllis á hverju ári. Þetta er ein niðurstaða Guðjónu Bjarkar Sigurðardóttur, viðskiptafræðings og verkefnastjóra hjá framkvæmda- og eignasviði Reykjavíkurborgar, en hún lauk nýlega mastersritgerð um gæðastjórnun verktaka í mannvirkjagerð. Guðjóna reifaði efni ritgerðarinnar á morgunverðarfundi Samtaka iðnaðarins (SI), Viðskiptablaðsins, Reykjavíkurborgar og Háskólans á Bifröst í gær. Ásamt Guðjónu höfðu Ferdinand Hansen, verkefnastjóri gæðastjórnunar hjá SI, og Eyjólfur Bjarnason, gæðastjóri Íslenskra aðalverktaka, framsögu.

Á fundinum kom fram að ekki hefði verið gerð sérstök könnun á því hvað mistök og gallar á framkvæmdum í mannvirkjagerð á Íslandi hefðu mikinn kostnað í för með sér. Hins vegar hefði slík rannsókn verið gerð í Danmörku árið 2005 og þar kom fram að tjón vegna þessara þátta væri um tíu prósent af heildarveltu í geiranum. Íslenskur byggingariðnaður veltir um 270 milljörðum ár hvert og því má áætla að hér á landi fari um 27 milljarðar í súginn.

Guðjóna segir því augljóst að gríðarlegur ávinningur yrði af því að fyrirtæki tækju upp og fylgdu gæðastjórnun. „Menn í byggingariðnaðinum vita af hugtakinu en taka það ekki alvarlega. Ég tel mjög mikilvægt að hamra á því hversu gríðarlegur ávinningur getur verið af því að vinna þessa vinnu á faglegan hátt. Það er þörf á hugarfarsbreytingu bæði hjá verktökum og verkkaupendum. Gæðastjórnun er nauðsynleg. Hún þarf ekki að vera flókin og á ekki að vera flókin.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka