Stjórn og forstjóri SPRON kærð

mbl.is

Hópur fjárfesta hefur kært stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis (SPRON) frá í fyrra og forstjóra félagsins, Guðmund Hauksson, fyrir að leyna því að stjórnarmenn félagsins á sumarmánuðum í fyrra, Hildur Petersen, Gunnar Þór Gíslason og Ásgeir Baldurs, hefðu selt stofnfjárhluti skömmu eftir að ákveðið var að skrá félagið á markað.

Árni Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður, Guðrún Árnadóttir og Vilhjálmur Bjarnason, fyrir hönd Samtaka fjárfesta, eru þau sem skrifa undir kæruna sem send var ríkissaksóknara og Helga Magnúsi Gunnarssyni, saksóknara efnahagsbrota, í gær.

Kært er fyrir fjársvik og brot á lögum um meðferð innherjaupplýsinga. Kæran beinist einnig gegn Erlendi Hjaltasyni og Ara Bergmanni Einarssyni sem sátu með Hildi, Ásgeiri og Gunnari Þór í stjórn SPRON á þeim tíma sem sala á stofnfjárbréfum stjórnarmanna fór fram. Erlendur og Ásgeir sitja enn í stjórn SPRON en hinir eru ekki lengur í stjórn. Erlendur er núverandi stjórnarformaður.

Hinn 17. júlí í fyrra samþykktu stjórnarmenn SPRON að leita eftir samþykki stofnfjáreigenda fyrir því að breyta SPRON í hlutafélag og skrá það á markað. Á stjórnarfundinum var lagt fram verðmat á SPRON sem Capacent vann. SPRON var metið á 59,4 milljarða króna.

Samtals seldu Hildur, Ásgeir og Gunnar Þór stofnfjárhluti fyrir tæplega 200 milljónir króna að nafnvirði. Mestu munaði þar um sölu Sundagarða ehf., sem Gunnar Þór átti í og stýrði, upp á 188 milljónir króna að nafnvirði. Stjórnarmennirnir seldu hluti sína á tvo til þrjá milljarða að raunvirði. Skömmu eftir að stjórn SPRON ákvað að stefna á skráningu félagsins á markað voru stofnfjárhlutir í SPRON seldir á genginu 24 til 30. Þegar félagið var skráð á markað 23. október í fyrra var gengið 18,7 í lok fyrsta viðskiptadags. Það er nú 3,4 og hefur lækkað í niðursveiflu sem einkennt hefur hlutabréfamarkaði undanfarið ár.

Í kærunni, sem 24 stundir hafa undir höndum, kemur fram að kærendur hafi upplýsingar um að starfsmenn SPRON hafi veitt fjárfestum þá ráðgjöf að stofnfjárhlutirnir ættu eftir að hækka mikið í verði þegar félagið yrði skráð á markað.

Saksóknari efnahagsbrota hafði áður greint frá því í bréfi, 23. júní á þessu ári, að hann hygðist ekki taka upp rannsókn á sölunni á grundvelli þeirra upplýsinga sem þá lágu fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert