Úrskurður um Vestfjarðaveg ógiltur

Séð ofan í Þorskafjörð.
Séð ofan í Þorskafjörð. mynd/bb.is

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fellt úr gildi úrskurð umhverfisráðherra frá því í janúar 2007 þar sem fallist var á svonefnda leið B í öðrum áfanga Vestfjarðavegar frá Bjarkarlundi til Eyrar í Reykhólahreppi. Nokkrir landeigendur á svæðinu, Náttúruverndarsamtök Íslands og Fuglaverndarfélag Íslands höfðuðu málið og kröfðust ógildingar. 

Skipulagsstofnun lagðist árið 2006 gegn því, að Vestfjarðavegur yrði lagður samkvæmt tillögu B á leiðinni frá Bjarkalundi til Eyrar. Nýja veginum er ætlað að bæta samgöngur annars vegar innar Reykhólahrepps og hins vegar frá Hringvegi til og frá V-Barðastrandasýslu og norðanverða Vestfirði.

Jónína Bjartmarz, þáverandi umhverfisráðherra, felldi hins vegar úrskurð Skipulagsstofnunar úr gildi og féllst á tillögu Vegagerðarinnar um að fara með veginn um Teigsskóg. Landeigendur og náttúruverndarfélög töldu að slík vegagerð myndi hafa í för með gríðarleg óafturkræf umhverfisspjöll í nær ósnortnu umhverfi og höfðuðu því mál til að fá úrskurð ráðherra ógildan.

Héraðsdómur tók undir þá málsástæðu, að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga þar sem að í matsferlinu hafi ekki farið fram mat á líklegum umhverfisáhrifum þverunar Djúpafjarðar og Gufufjarðar. Óvissa ríki því um líkleg áhrif þverunar Djúpafjarðar og Gufufjarðar á gróður á töngum og í botni fjarðanna.

Segir dómurinn að  þar sem fullnægjandi upplýsingar um áhrif þverunar fjarðanna á umhverfið hafi ekki legið fyrir þegar ráðherra kvað upp úrskurð sinn, hafi honum borið að láta rannsaka þau áhrif á fullnægjandi hátt. Þannig hefði verið lagður viðhlítandi grundvöllur að ákvörðuninni áður en hún var tekin. Þar sem á skorti að fyrrnefndar upplýsingar lægju fyrir við uppkvaðningu úrskurðar ráðherra sé um svo veigamikinn ágalla á honum að ræða, að óhjákvæmilegt sé að fella þann hluta úrskurðarins úr gildi.

Leið B, sem var valkostur Vegagerðarinnar, er rúmir 15 km á lengd og liggur frá Þórisstöðum í Þorskafirði, út Þorskafjörð vestanverðan, um Hallsteinsnes, þvert yfir utanverðan Djúpafjörð vestur á Grónes (Gróunes) og þaðan þvert yfir utanverðan Gufufjörð. Vestan Gufufjarðar liggi vegurinn frá Melanesi og vestur fyrir Kraká.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert