„Bara innantóm orð“

Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Vaxandi óþreyju gætir innan stéttarfélaga vegna kjaramála og mikilla verðhækkana að undanförnu. Forsendunefnd ASÍ og SA á reglulega fundi vegna endurskoðunar kjarasamninga og auk þess undirbúa stéttarfélög og landssambönd sig þessa dagana fyrir kjaraviðræður við sveitarfélögin.

Sigurður Bessason, formaður Eflingar, sagði í gær að öll umræða um þjóðarsáttarsamninga væri út í hött. „Það er mikill misskilningur að hér sé einhver umræða í gangi um þjóðarsátt eins og við heyrum í fjölmiðlum. Bak við þessa umræðu er nákvæmlega ekki neitt,“ sagði hann í frétt frá félaginu í gær. Nýjasta útspil Orkuveitu Reykjavíkur um nærri 10% hækkun á gjaldskrá heita vatnsins sé sameiginlega á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og borgarstjórnar þar sem iðnaðaráðherra hafi þegar staðfest hækkunina. „Á sama tíma og þessi ákvörðun Orkuveitunnar er tekin er ekki hægt að halda fund í borgarráði Reykjavíkur vegna utanlandsferðar borgarfulltrúa. Nær hefði verið að þeir hefðu verið að sinna vinnu sinni og komið í veg fyrir hækkunina.“

Hann segir að engin áhrifaöfl í þjóðfélaginu verji stöðugleikann. Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar tali um mikilvægi þess að halda niðri verðlagi. „Það er ekki hægt að taka mark á þeim þar sem þetta eru bara innantóm orð. Nýlega hækkaði Síminn gjaldskrá sína um 4% og tryggingafélögin hafa einnig hækkað gjöld sín að undanförnu. Allir þessir stóru aðilar hleypa öllum kostnaðarhækkunum beint út í verðlagið. Þannig er ljóst að stórfyrirtæki og opinberir aðilar leggja ekkert af mörkum til að halda hér niðri verðlagi.“

Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar-stéttarfélags, var í gær á fundum með félagsmönnum í Þingeyjarsýslum vegna undirbúnings viðræðna við sveitarfélögin um endurnýjun kjarasamninga. „Það er þungt hljóð í fólki og krafa um há laun og stuttan samning,“ segir Aðalsteinn. Hann segir að launafólk sem samþykkti kjarasamningana í febrúar sl. sé farið að lengja eftir endurskoðun þeirra og vilji sjá verulegar lagfæringar á kjörum sínum. Hann rifjar líka upp að í tengslum við gerð febrúarsamninganna hafi ríkisstjórn lofað ýmsum aðgerðum. „Menn bundu vonir við þetta. Ég tel að ríkisstjórnin þurfi að fara að finna plaggið og vinna eftir því. Það var m.a. talað um ýmsar breytingar á húsaleigubótum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka