„Ég er alveg í skýjunum eftir sumarið,“ segir Jón Þór Júlíusson, leigutaki Grímsár og Tunguár í Borgarfirði, en veiði lauk á svæðinu í vikunni og þar var metveiði, eins og svo víða á Vesturlandi.
„Lokatölur eru líklega 2.206 laxar. Ég bjóst kannski ekki við þessari veiði en ég var bjartsýnn hvað varðaði betri júníveiði en síðustu sumur. Ég hafði helst með mér í því, að mér fannst það lukkast svo vel vorið 2007 þegar seiðin gengu út. Þau fóru út á góðum tíma og náttúran tók síðan vel á móti þeim í alla staði. Skilyrðin í sjónum voru mjög góð. Það fer ekki á milli mála, alls staðar er metveiði hér í kringum okkur.“
Um 100 laxanna veiddust í þveránni Tunguá.
„Ég er klár á því að ef við hefðum ekki lent í þessum gríðarlegu haustflóðum, þá hefðum við veitt 100 til 200 laxa í viðbót. Um miðjan ágúst var ég satt best að segja farinn að gæla við 2.500 laxa – en mikið vill meira,“ segir Jón Þór og hlær.
Þegar fyrra met var sett var einnig veitt á maðk. Nú er aðeins veitt á flugu og kominn stífur kvóti, leyft að hirða einn lax á vakt en menn hvattir til að sleppa öllum fiskum.
„Burtséð frá veiðitölunum var ég mjög ánægður með það hve vel veiðimenn tóku í þennan nýja kvóta og sleppifyrirkomulagið. Þetta hefur aukið veiðina að einhverju leyti, með endurveiddum löxum. Það grynnkar í öllum bankabókum þessa dagana en það er góð innistæða í Grímsá fyrir framtíðina!“