Upphitað torg og sjö hæða hótel

Laugavegur 21
Laugavegur 21 mbl.is

Skipulagsráð er með til meðferðar breytingar á deiliskipulagi á svokölluðum Hljómalindarreit, sem afmarkast af Laugavegi, Klapparstíg, Hverfisgötu og Smiðjustíg. Í greinargerð kemur fram að á svæðinu verða verslanir, skrifstofur, veitingastaðir og sjö hæða hótel. Einnig er gert ráð fyrir stóru torgi eða garði inn á milli húsanna. Það er fasteignafyrirtækið Festar sem vinnur að uppbyggingu á reitnum.

Ætlunin er að gera upp að hluta til Laugaveg 17. Laugavegur 21, þar sem verslunin Hljómalind var áður, verður einnig gerður upp og látinn halda hlutverki sínu. Á milli þeirra húsa verður reist nýbygging með gömlum formum við Laugaveg 19. Nýtt hús verður byggt við Klapparstíg þar sem áður voru Sirkus og skrifstofur Eve Online við Klapparstíg 28 og 30.

Festar eiga ekki húsin við Laugaveg 13 og 15, þar sem m.a. eru til húsa skartgripaverslun og úrsmíðameistari og Spilabúð Magna var áður, og Klapparstíg 26, þar sem Hótel Klöpp er.

Verslanir og þjónusta á jarðhæð allra bygginga

Verslanir og þjónusta eru á jarðhæð allra bygginga í tillögunni. Heimilt er einnig að hafa verslanir í kjallara og á annarri hæð bygginga.

Lagt er til að inni á reitnum verði torg í skjóli fyrir vindum og bílaumferð með kaffihúsum, veitingastöðum og verslunum. Á torginu er mikil áhersla lögð á skjólgott og sólríkt útirými. Möguleiki er á upphitun í þessu rými þannig að gestir og gangandi geti notið miðbæjarlífsins allt árið um kring.

Stór inngangur verður inn á torgið frá Laugaveginum, við hliðina á Hljómalind, en lögð er áhersla á gott aðgengi og verða alls fimm inngönguleiðir á torgið.

Við Hverfisgötu og Smiðjustíg er gert ráð fyrir hótelbyggingu og verður gestamóttakan á horni Hverfisgötu og Smiðjustígs. Á þessu horni er byggingin gerð eins gegnsæ og kostur er til að sjónlínur haldist upp nálægar götur og í gegnum hana að torginu. Sjötta og sjöunda hæð eru dregnar nokkuð inn frá götu sem gerir það að verkum að gangandi vegfarendur skynja bygginguna lægri. Á sjöundu hæð er hugsaður veitingastaður með þakgarði og útsýni yfir að nýju menningarhúsi og höfninni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert