Aldeyjarfoss í Skjálfandafljóti er táknrænn fyrir virkjanamál á Íslandi. Til eru áætlanir um að virkja fallið í fossinum, frumrannsóknir hafa farið fram og teikningar verið gerðar. Kannski verður virkjað við Hrafnabjörg og vatn tekið af fossinum þegar fram líða stundir. Kannski ekki. Ekkert hefur hreyfst í því máli í nokkur ár. Fyrirætlanir um að virkja standa samt enn, bíða betri tíma. Nákvæmlega þannig er ástatt á fjölmörgum stöðum á landinu. Þegar undirbúningur framkvæmda byrjar fyrir alvöru, þá fer umræðan um náttúruvernd í gang. Eina virkjun í einu.
Nú hillir undir stóru breytinguna í þessum efnum. Að allir stórir virkjunarkostir séu vegnir og metnir, bornir saman og þeim raðað í forgangsröð. Að virkjanamálin fái stefnuskrá til framtíðar. Hingað til hafa Íslendingar svarið sig í ætt við aðrar iðnvæddar þjóðir, látið hluta náttúrunnar í skiptum fyrir mannlega framþróun. Verður Aldeyjarfoss þar á meðal, eða er það ónauðsynlegt? Fæst mesti krafturinn úr Aldeyjarfossi með því að horfa á hann eða með því að virkja hann?