Tekið á því á lokasprettinum

HO

Aðeins þrjár vikur tæpar eru þar til kosið verður um tvö tímabundin sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Kosningin fer fram föstudaginn 17. október og valið stendur milli þriggja ríkja: Tyrklands, Austurríkis og Íslands. Undirbúningsvinna starfsfólks utanríkisráðuneytisins vegna framboðsins er á lokasprettinum og fara þar í fararbroddi starfsmenn fastanefndar Íslands við höfuðsstöðvar SÞ í New York. Þeim hefur borist liðsauki á undanförnum vikum með starfsfólki sem komið er hingað tímabundið til að sinna þessum lokaundirbúningi og nú í vikunni sem leið sóttu Geir H. Haarde forsætisráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra allsherjarþing SÞ þar sem þau hittu aðra ráðherra og þjóðarleiðtoga og ræddu meðal annars við þá um framboð Íslands.

Norrænt framboð og framboð smáþjóðar

Ísland býður sig fram í öryggisráðið með stuðningi hinna Norðurlandanna en hefð er fyrir því að eitt þeirra sækist eftir setu í ráðinu á fjögurra ára fresti. Noregur og Danmörk hafa fjórum sinnum átt sæti í ráðinu, Svíar þrisvar og Finnar tvisvar, en Ísland er að bjóða sig fram í fyrsta sinn. Setið er í ráðinu til tveggja ára í senn og nái Ísland kjöri verður þetta með allra stærstu verkefnum og ein mesta ábyrgð sem Íslendingar hafa tekið að sér á alþjóðavettvangi.

Í ræðu sinni á allsherjarþinginu á föstudag sagði forsætisráðherra að Norðurlöndin hefðu alla tíð gegnt lykilhlutverki í þeim verkefnum samtakanna sem snúa að friðargæslu og þróunaraðstoð og að þau hefðu sýnt afdráttarlausa skuldbindingu við alþjóðalög og næði Ísland kjöri myndi það fylgja þessari hefð.

Þau atriði sem lögð hefur verið áhersla á í málflutningi Íslands þegar framboðið er kynnt fyrir öðrum þjóðum er að framboð Íslands sé norrænt framboð og einnig að það sé framboð smáþjóðar sem hefur enga verulega geópólitíska hagsmuni. Tekið er fram að Ísland beri virðingu fyrir alþjóðalögum, mannréttindum og lýðræði og vilji stuðla að gagnkvæmri virðingu og umburðarlyndi í samskiptum ríkja. Þá vilji Ísland sjá aukna samþættingu öryggismála og þróunarstarfs og stuðla að verndun óbreyttra borgara á átakasvæðum með sérstaka áherslu á konur og börn. Annað sem snýr að konum er að hvetja til þess að þær fái aukinn aðgang að friðarviðræðum og uppbyggingu samfélaga eftir stríðsátök. Ísland vilji einnig auka gegnsæi í starfi öryggisráðsins og beita sér fyrir því að þar ríki lýðræðislegar vinnuaðferðir sem auðvelda öðrum aðildarríkjum SÞ að fylgjast með starfsemi þess.

Segir stemninguna í garð Íslands mjög góða

GEIR H. Haarde forsætisráðherra sagðist telja hugarfarið gagnvart framboði Íslands almennt vera jákvætt.

„Mér hefur fundist stemningin í okkar garð vera mjög góð og miklu betri en ég átti von á. En það er nú samt hér eins og í pólítík alls staðar annars staðar að það koma ekki alltaf jafn mörg atkvæði upp úr kassanum og menn hafa átt von á þegar þeir telja saman loforðin sem gefin eru, enda er þetta leynilegt kosning.

En við höfum samt ástæðu til að vera nokkuð bjartsýn. Við höfum háð þessa baráttu á frekar lágum og hófstilltum nótum, eins og við ætluðum okkur að gera. Ég held að hún hafi orðið okkur til sóma hvernig svo sem niðurstaðan verður. Og ég held að við höfum lært mikið af því að taka þátt í þessu.“

Telurðu að vinnan við framboðið hafi haft gildi í sjálfri sér, burtséð frá væntanlegum niðurstöðum kosninganna?

„Ég tel að það sé að koma í ljós að hún hafi haft heilmikið gildi í sjálfri sér og opnað augu okkar fyrir alls kyns vandamálum og verkefnum í löndum sem við höfðum kannski ekki kynnt okkur mjög vel.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert