Lögregla fékk síðdegis tilkynningu um eld í tveimur bifreiðum á Reykjavegi við Laugardal í Reykjavík og hafði kviknað í báðum bílunum. Samkvæmt upplýsingum frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins var einn maður fluttur á slysadeild með brunasár.
Að sögn nágranna varð mikil sprenging, en búið er að slökkva eldinn í bílunum. Gatan er enn lokuð fyrir umferð.
Að sögn sjónarvotts var aðkoman skelfileg, en vegfarendur hafi komið manni í annarri bifreiðinni til aðstoðar og dregið hann út úr logandi bifreiðinni. Sjónarvotturinn segir fólkið hafa unnið hetjudáð.