Krabbameinsfélagið og Þjóðleikhúsið hafa bæði frestað blaðamannafundum sem boðaðir voru í dag. Ástæðan er hin stóru tíðindi morgunsins úr fjármálaheiminum. Talið er að þau muni skyggja á alla aðra umfjöllun dagsins.
Þjóðleikhúsið hafði boðað blaðamenn til fundar á þaki Þjóðleikhússins kl. 13.00 þar sem kynna átti svonefnt Þjóðleiksverkefni. Fundinum hefur verið frestað um viku. Kristrún Heiða Hauksdóttir kynningarstjóri leikhússins sagði að fundinum hafi verið frestað vegna stórtíðinda dagsins. „Við lítum svo á að þetta sé erfiður dagur fyrir blaðamannafundi,“ sagði Kristrún og taldi að tíðindi úr leikhúsinu hefðu líklega drukknað í fjármálafréttunum.
Krabbameinsfélagið ætlaði að kynna árvekni- og söfnunarátak gegn brjóstakrabbameini kl. 11.00 í dag. Athygli ehf. sendi út tilkynningu um að fundinum væri frestað um einn dag. Þar á bæ fengust þær upplýsingar að fundinum hafi verið frestað fegna þess hve mikið væri í fréttum.