Bandarísku forsetaframbjóðendurnir hvöttu í kvöld báðir þingmenn til að hefja þegar vinnu við að endurskoða frumvarp um björgunaráætlun fyrir bandaríska fjármálakerfið en þingmenn í fulltrúadeild þingsins felldu frumvarpið í atkvæðagreiðslu síðdegis.
„Ég hvet þingið til að snúa sér nú þegar að því að taka á þessu hættuástandi og setjast að nýju við teikniborðið," sagði John McCain, frambjóðandi repúblikana, í sjónvarpsávarpi. „Nú á ekki að leita að sökudólgum heldur leita að lausnum."
Barack Obama, frambjóðandi demókrata, sagði að þrátt fyrir niðurstöðuna
í fulltrúadeildinni væri enn hægt að ná samkomulagi um
björgunaráætlunina. Hvatti hann báða flokka til að vinna að samkomulagi
um nýtt frumvarp.
McCain studdi frumvarpið, sem gerði ráð fyrir því að allt að 700 milljörðum dala yrði varið til að kaupa verðlaus skuldabréf af fjármálafyrirtækjum. Flokksbræður hans, sem margir voru andvígir frumvarpinu, og hópur demókrata, greiddu hins vegar atkvæði gegn því.
„Ég vonaði að björgunaráætlunin myndi fá nægilega mörg atvæði vegna þess að það er nauðsynlegt fyrir fjölskyldurnar og fyrirtækin og alla vinnandi Bandaríkjamenn að það takist að leysa þetta vandamál."
Framboð McCains sagði í kvöld, að Obama hefði grafið undan frumvarpinu og reynt hvað hann gat til að hindra tilraunir McCains til að ná fram niðurstöðu sem báðir flokkar gætu sætt sig við. Obama gerði hins vegar lítið úr fullyrðingum McCains um að hann hefði reynt að vinna að samkomulagi.