Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, segir að kaup ríkisins á 75% hlut í Glitni séu mikil tíðindi inn í samhengi einkavæðingar, útrásar og hugmyndafræði nýfrjálshyggjunar. Væntanlega séu þeir sem mest mærðu þá aðferðafræði hugsi yfir stöðu mála.
„Svona átti þetta væntanlega ekki að fara, að innan skamms sætum við uppi með ríkisbanka. En líklegast er þetta illskásti kosturinn í stöðunni. Ef ríkið verður að koma að málum á annað borð, þá er hreinlegast að ríkið komi inn í bankann með ráðandi hlut. Það gefur þó vonir um að þessi verðmæti skili sér aftur til baka, um leið og ríkið fær stöðu til að stokka upp spilin. Þarna þarf að taka til hendinni," segir Steingrímur og vísar þar m.a. til ofurlauna stjórnenda bankanna.