Kristinn undrast ákvörðun formannsins

Kristinn H. Gunnarsson.
Kristinn H. Gunnarsson. mbl.is/Þorkell

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, segir að tillaga formanns flokksins um nýjan þingflokksformann komi verulega á óvart og hann hafi ekki samþykkt að verða varaformaður þingflokksins.

Kristinn segir að hótanir, ofbeldi og rógur bíti á formanninn þannig að hann breyti fyrri ákvörðun sinni til þess að gera Jóni Magnússyni til geðs. Fyrir nokkrum vikum hafi hann tilkynnt þingflokknum að hann myndi ekki gera tillögur um breytingar á stjórn þingflokksins.

„Þetta er í mikilli andstöðu við mig,“ segir Kristinn og bætir við að önnur viðbrögð sín komi fljótlega í ljós. Ákvörðunin komi verulega á óvart í ljósi þess sem formaðurinn hafi áður sagt við sig og aðra þingmenn flokksins.

„Hann velur sem formann þingflokksins mann sem hefur líst vantrausti á alla starfsmenn flokksins,“ heldur Kristinn áfram og bætir við að síðast í hádeginu í dag hafi Jón í pistli á Útvarpi Sögu gert kröfu um að einn starfsmaður flokksins yrði rekinn.  „Hann hefur gert kröfu til þess að tveir yrðu reknir og líst vantrausti á framkvæmdastjóra flokksins. Ég sé ekki hvernig starfsmenn flokksins eigi að geta unnið með þessum ágæta þingmanni.“

En þú ert áfram í flokknum? „Já, ég hef ekki breytt því ennþá,“ svarar Kristinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka